hvíl í friði, þú mikli meistari myrkursins
Magnús Blöndal Jóhannesson
Þú ert allur. ég þekkti þig ekki mikið, samt hafði þessi frétt mikil áhrif á mig.
Ég hitti Magnús eitt sinn. Það var er ég vann í Hátúni á tímabili, þar sem hann bjó. Þetta var fyrir um þrem árum síðan. Ég kíkti þá í heimsókn til hans. Hann var þá kominn hátt á áttræðisaldur. Skömmu fyrr hafði ég séð verk eftir hann flutt á ART2000. Að öðrum verkum ólöstuðum fannst mér það í algerum sérflokki, en þetta er verkið sjöstirni. þetta verk hefur oft verið notað af Stockhausen, í fyrirlestrum út um allan heim.
Magnús var tágrannur eins og gamall unglingur, og kom mér það skemmtilega á óvart hversu viðræðugóður hann var. Hann leyfði mér að heyra tape með ýmissi tónlist sem hann hafði unnið að í gegnum tíðina. Það var ekki mikið inni hjá honum, nema Oberheim synthi og forláta PC tölva, sem hann notaði til að skrifa nótur. Þetta voru m.a. synfónísk verk, en einnig popptónlist. t.d. hafði hann tekið upp úr útvarpinu lag frá níunda áratugnum og spilað rafrænar laglínur við svo úr varð verk á allt öðru plani. Hann sagði mér síðan sögur af lífi sínu. Magnús hafði farið út til Bandaríkjanna að læra þegar hann var ungur maður. Þar kynntist hann m.a. frakkan Edgar Varèse, sem er einn frægasti karakter 20.aldar tónlistar. Hann ræddi aldrei við þann mann um tónlist, enda var þetta í gegnum sameiginlega kunningja, íslenska konu sem Varèse var húsgangur hjá á þessum árum. Það var einmitt skemmtilegt hvernig Magnús virtist þekkja allar aðalfígúrur tónlistarlífs þess tíma. Þegar Magnús kom heim fór hann að vinna hjá útvarpinu, þar sem hann komst í tæki og tól, og bjó til fyrstu raftónlist sem var búin til á Íslandi. Hann stjórnaði einnig tónlist í uppfærslu á túskildingsóperunni sem var víst uppseld kvöld eftir kvöld. Magnús er einstakur karakter að þessu leyti, að hann er einn mesti brautryðjandi íslenskrar tónlistar, en var um leið ótrúlega fjölhæfur. Hann samdi einnig fyrsta íslenska verkið, er studdist við raðtækni. Einnig samdi hann tónlistina við 79 af stöðinni, en þaðan kemur hið klassíska lag, sveitin milli sanda. Það er klassíkst, fallegt popplag.
En það var uppfrá missi eiginkonu Magnúsar, að hann missti stjórn á neyslu sinni. Hann var einn fyrsti íslendingurinn til að fara í meðferð til Freeport í Bandaríkjunum. Þar líkaði honum svo vel að hann var í Bandaríkjunum í mörg ár á eftir.
Er hann kom heim samdi hann m.a. verkið _______ sem er gífurlega fallegt, stutt tónverk. þarna hefur þessi mikli frumkvöðull gengið í gegnum eldskírn, og er snúinn aftur til einfaldleikans.
ég hugsa að ég skilji núna, hvers vegna þessi frétt hafði þessi áhrif á mig. það sást er maður horfði í augu þessa manns, að þar var ekkert nema sakleysið blákalt. hann var einn af þessum mönnum sem fylgja aðeins innra kalli, og hugsa aldrei út í neitt annað. hann var einn af þeim mönnum, er aðeins nærvera þeirra fær mann til að undrast tilveru raunveruleikans, það er eins og gleymdar spurningar vakni úr dvala. hann skilur eftir sig skarð, ekki einungis fyrir klassík og raftónlist heldur fyrir tónlistarlífið allt.